loader image

Dags

Viðtal við Véstein Valgarðsson, forstöðumann DíaMats

Skrifað af:

Vésteinn Valgarðsson

Þetta viðtal birtist á vefritinu Tíðin.is á dögunum.

Lífsskoðunarfélagið DíaMat er nýjasta viðbótin í trúfélaga og lífskoðunarmenningu landsins. Við hjá Tíðinni fengum Véstein Valgarðsson forstöðumann félagsins til að svara nokkrum spurningum um félagið.

Hvernig fæddist hugmyndin að stofnun Díamat?
Ég skráði mig í Siðmennt fyrir löngu síðan, bæði til að vera með í henni sem samfélagi guðleysingja og til að styðja baráttu þeirra fyrir skráningu sem veraldlega lífsskoðunarfélag. Þegar sú skráning var í höfn datt mér fljótlega í hug að þá væri tímabært að stofna lífsskoðunarfélag um þá lífsskoðun sem ég aðhyllist sjálfur, díalektíska efnishyggju. DíaMat var svo stofnað 2015 og sótti um skráningu strax og við töldum skilyrðum laganna fullnægt, eða 29. febrúar í fyrra. Í nóvember sl. fengum við svo skráningu.
Hverjar eru trúar og/eða lífskoðanir að baki Díamat?
DíaMat snýst um díalektíska efnishyggju og undirtegund hennar, sögulega efnishyggju. Efnishyggja þýðir að við leitum svara í efnisheiminum en ekki í handanveruleika. Við teljum allt sem við köllum andlegt eða sálrænt eiga sér efnislegar forsendur. Díalektísk efnishyggja er því eiginlegt trúleysisfélag, þ.e. hafnar yfirnáttúrutrú. Díalektík þýðir að við skoðum alla hluti, alla framvindu og allar breytingar sem samspil eða átök andstæðna. Söguleg efnishyggja er sögu- og samtímaskoðun byggð á  sömu grundvallaratriðum, þá skiljum við bæði atburði, félagsleg tengsl, siðferði, hugmyndafræði o.fl. í samfélaginu út frá því hvernig efnahagslífið og aðrir félagslegir þættir eru í því samfélagi, og hvernig þeir hafa verið áður. Ekkert af þessu ætti að hljóma neitt sérstaklega framandi í eyrum folks, því í raun má segja að hugmyndir DíaMats séu að miklu leyti almennt viðteknar í samfélaginu.
Hver er framtíðarsýn þín fyrir Díamat?
Að það vaxi og dafni og verði öflugt félag! Félagið tekur þátt í baráttunni fyrir betri heimi með því að styðja framsækna málstaði og með því að veita félagslegan og persónulegan stuðning. Við sjáum líka fyrir okkur að geta stuðlað að fræðslu og rannsóknum á grundvelli díalektískrar efnishyggju. Auk þess ætlum við að koma okkur upp félagsheimili, sem getur orðið miðstöð starfseminnar, með fundaaðstöðu, bókasafni o.fl.
Er Díamat stundað annarsstaðar en á Íslandi?
Díalektísk efnishyggja var opinber lífsskoðun Sovétríkjanna og fleiri landa. Hún er stunduð að einhverju leyti í flestum löndum. Til eru félög um lífsskoðunina í öðrum löndum, en mér er ekki kunnugt um nein sem eru sambærileg við DíaMat. Því veldur hin síð-lútherska skipan sem er á trúar- og lífsskoðunarfélögum á Íslandi, að ríkið skuli sjá um að halda félagatal og úthluta sóknargjöldum til félaga.
Hvað eru margir meðlimir?
Ég er ekki með nákvæma tölu á hreinu, en það mun vera eitthvað í kring um þrjá tugi núna.
Býður félagið upp á skírnir, fermingar, giftingar eða jarðarfarir og hefur einhver nýtt sér það?
Félagið býður upp á nafngjafir, manndómsvígslur, hjónavígslur og jarðarfarir. Enginn hefur nýtt sér það ennþá. Félagið telur manndómsvígslur og hjónavígslur ekki nauðsynlegar athafnir í sjálfu sér, heldur mannasetningar með sögulegar ástæður. En þar sem mjög margir vilja slíkar athafnir, og hjónavígslur hafa auk þess lagalegt gildi í landinu, og trúar- og lífsskoðunarfélögum oft falið að sjá um þær, bjóðum við fólki upp á þær.
Eitthvað annað sem þú vilt fræða okkur um Díamat?
Við erum með heimasíðu: www.diamat.is – þar sem má bæði fræðast almennt um félagið og líka sjá auglýsingar um viðburði á okkar vegum, en við höldum reglulega samkomur. Ef einhvern langar til að skrá sig í félagið er einfaldast og fljótlegast að gera það í gegn um Ísland.is.

Deila:

Facebook
Twitter