loader image

Um siðferðisgrundvöll díalektískrar efnishyggju

Samþykkt á stofnfundi DíaMats 22. apríl og lítið breytt af framhaldsstofnfundi 16. október 2015.

Hugmyndir manna um hvað sé gott og hvað sé vont eru í grunninn til þær sömu: Það sem bætir líf okkar og barnanna okkar, stuðlar að öryggi, þroska og velsæld, það eykur hamingju okkar og er því gott – og öfugt: það sem gerir líf okkar og barnanna okkar verra, skerðir öryggi, þroska og velsæld, það er vont. Þar með er þó ekki nema hálf sagan sögð, því vegna hagsmunaárekstra horfa sömu málin ólíkt við fólki í mismunandi þjóðfélagsstöðu.

Ráðandi viðhorf eru jafnan viðhorf ráðandi stéttar, sem notar skoðanamyndandi tæki á borð við fjölmiðla, trúarbrögð og menningu almennt til þess að innræta almenningi viðhorf sem verja ríkjandi þjóðskipulag. Þegar þau viðhorf eru andstæð hagsmunum alls almennings tökum við hagsmuni almennings fram yfir hin boðuðu viðhorf. Til dæmis getum við sagt að nægjusemi sé dygð að því leyti að rétt sé að fara sparlega með auðlindir jarðar og taka ekki meira til sín af hinu sameiginlega en manni ber. En ef hún lætur fólk sætta sig við vont hlutskipti, þegar betra er í boði, þá missir hún marks og er ekki dygð heldur löstur, sem gerir lífið verra og bitnar mest á manni sjálfum og þeim sem maður deilir hagsmunum með, stéttsystkinum manns.

Þegar borinn er út siðaboðskapur á borð við að ekki skuli mann deyða eða að ekki skuli stela, þá viljum við að sama gangi yfir alla: Þess vegna höfnum við ekki bara óskipulögðum morðum frömdum af einstaklingum, heldur líka dauðarefsingum og stríðsrekstri frömdum af ríkjum, og hungurdauða og drepsóttum sem stafa af tómlæti ríkjandi afla þjóðfélaganna. Og við höfnum ekki bara handahófskenndu hnupli örvilnaðs, fátæks fólks, heldur umfram allt því þjóðfélagslega arðráni sem auðvaldsskipulagið byggist á. Sé boðuð nægjusemi, viljum við líka að hún gangi yfir alla, og þeir sem hafa dregið til sín meiri auð og völd en réttlætt verður með þeirra eigin vinnu og verðleikum, byrji þá á að jafna sína þjóðfélagsstöðu alþýðunni.

Þá viljum við að öllu fólki sé gert kleift að öðlast hlutdeild í gæðum þjóðfélagsins, svo sem menntun, heilsu og menningarlífi.

Við byggjum siðferðisgrundvöll okkar ekki á siðferðislegri vandlætingu heldur á hagsmunum alþýðunnar: Það sem er í þágu alþýðunnar er þannig æskilegt, en það sem ógnar alþýðunni er óæskilegt. Því er samstaða miðlæg í siðferðinu, samstaða alþýðufólks með öðru alþýðufólki, og um leið höfnun á öllu sem sundrar samstöðunni og hindrar alþýðuna í baráttunni fyrir hagsmunum sínum.

Ekkert gerist án einhvers samhengis við umhverfi sitt og allir hlutir, öll ferli og öll orka tengjast öðrum hlutum, orku eða ferlum.

Vald mannsins yfir náttúrunni er háð skilningi hans á henni, og vald mannsins yfir sjálfum sér er háð samstöðu og samvinnu fólks um hið sameiginlega.

Maðurinn er mælikvarði allra hluta frá sínu eigin sjónarmiði.

Allt siðferði á sér upphaf í félagslegum aðstæðum.

Hugmyndir koma frá efnislegum veruleika sem fólk lifir við.

Ábyrg umgengni um vistkerfið og sjálfbær nýting náttúrugæða eru forsenda þess að mannkynið geti lifað og dafnað í framtíðinni.