loader image

Stofnskrá fyrir DíaMat

Samþykkt á stofnfundi DíaMats 22. apríl og lítið breytt af framhaldsstofnfundi 16. október 2015.

1 Díalektísk efnishyggja og undirgrein hennar, söguleg efnishyggja, eru grundvöllur félagsins.

2 Díalektísk efnishyggja er aðferð til að skoða efnisheiminn og mannlegt samfélag, þar sem díalektík þýðir að hlutir, fyrirbæri eða hugmyndir eru skoðuð í samhengi við hvert annað en ekki aðskilin frá hvert öðru, og þar sem breytingar eru skoðaðar sem átök gagnverkandi krafta sem leiða til nýrrar niðurstöðu, eða stöðu. Efnishyggja þýðir að efnisheimurinn er álitinn einn og óskiptur, efnið er undirstaða alls sem við köllum vitund eða anda, og vitund eða andi eru ekki hugsanleg nema sem afurð efnislegra ferla.

3 Söguleg efnishyggja er aðferð til að skoða mannkynssöguna með aðferð díalektískrar efnishyggju. Hún skoðar framvindu sögunnar út frá framförum í framleiðsluháttum og afleiðingum þeirra í stjórnmálum, samfélagsskipan, hugmyndum, búsetu og gildismati.

4 Þeir sem aðhyllast díalektíska og sögulega efnishyggju afneita allri yfirnáttúru, allri hjátrú og öllum æðri máttarvöldum. Við álítum að vísindaleg aðferð sé besta, ef ekki eina aðferðin til að komast að hlutlægum sannleika um raunveruleikann. Við teljum því raunvísindi, hugvísindi og félagsvísindi vera bestu tækin sem við höfum til að öðlast vitneskju.

5 Við höfum manneskjuna í öndvegi, sem miðpunkt lífsviðhorfs okkar. Gildismat okkar framgengur af hagsmunum og velferð manneskjunnar, alþýðunnar. Við tökum afstöðu með öllu sem stuðlar að velferð, mannréttindum og lýðræði. Við tökum afstöðu gegn öllu sem ógnar velferð, mannréttindum og lýðræði og viðurkennum ekki kúgun eða ranglæti af neinu tagi, hvorki á einstaklingslegum né samfélagslegum grundvelli.

6 Við teljum æðsta markmið mannkynsins vera að öðlast fullt forræði yfir sjálfu sér. Til þess þarf að leiða félagslegar mótsetningar til lykta í samfélagi sem er stjórnað eftir lýðræði, rökhyggju og hagsmunum alþýðu manna. Til þess þarf einnig að stuðla að áframhaldandi framþróun í vísindum og tækni, til að ná sem bestum skilningi á vistkerfinu og félagslegum kringumstæðum, svo haga megi mannlífinu sem sjálfbærast, best og öryggast, sem eru hagsmunir alþýðunnar.

Ekkert gerist án einhvers samhengis við umhverfi sitt og allir hlutir, öll ferli og öll orka tengjast öðrum hlutum, orku eða ferlum.

Vald mannsins yfir náttúrunni er háð skilningi hans á henni, og vald mannsins yfir sjálfum sér er háð samstöðu og samvinnu fólks um hið sameiginlega.

Maðurinn er mælikvarði allra hluta frá sínu eigin sjónarmiði.

Allt siðferði á sér upphaf í félagslegum aðstæðum.

Hugmyndir koma frá efnislegum veruleika sem fólk lifir við.

Ábyrg umgengni um vistkerfið og sjálfbær nýting náttúrugæða eru forsenda þess að mannkynið geti lifað og dafnað í framtíðinni.