loader image

Dags

Betri bálfarir, betri jarðarfarir

Skrifað af:

Vésteinn Valgarðsson

Það hefur færst í vöxt á undanförnum áratugum að fólk kjósi að láta brenna lík látinna ástvina sinna í stað þess að grafa þau. Eina líkbrennsla landsins starfar í Fossvogi, og er rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma. Ofninn þar er orðinn mjög gamall og lélegur og nauðsynlegt er að reisa nýja bálstofu.

Á sama tíma eiga sífellt færri samleið með kristnum kirkjum, stöðugt fækkar í Þjóðkirkjunni og stöðugt fleiri velja annan vettvang en kirkjur fyrir athafnir eins og hjónavígslur eða nafngjafir. Þá eru það útfarirnar. Það vantar aðstöðu sem er ekki kirkja en hentar vel fyrir útfarir. Ekki kirkja, segi ég, því nútíminn krefst þess að allir geti setið við sama borð og allir upplifi sig jafn velkomna. Sem verður aldrei í húsi sem eitt trúfélag á, sama þótt það sé ríkisrekið.

Sem betur fer er lausn í sjónmáli: Tré lífsins er nýsköpunarverkefni sem er að vinna að því að koma upp trúarlega hlutlausri aðstöðu fyrir jarðarfarir, bálfarir og aðrar athafnir á tímamótum lífsins. Meðal annars vill félagið opna og reka bálstofu.

Nú þarf að staldra við. Það er tæpast markaður fyrir tvær líkbrennslur í landinu. Hvað ber að gera? Veita Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma fé til að koma upp nýrri bálstofu, þar sem kirkjan heldur um stjórnvölinn? Eða byggja upp nýja bálstofu og samhliða henni alhliða aðstöðu fyrir athafnir, þar sem allir sitja við sama borð? Athugið að ég segi allir – þar sem allir eru velkomnir er auðvitað ekkert sem bannar að kristnar athafnir séu haldnar til jafns við aðrar.

Það má umorða spurninguna: Viljum við uppbyggingu í anda úreltrar forréttindastöðu ríkiskirkjunnar, eða viljum við uppbyggingu sem vísar fram á veginn til frjálslynds þjóðfélags jafnréttis og fjölbreytni?

Trúlausa lífsskoðunarfélagið DíaMat styður að allskonar fólk geti haldið athafnir á tímamótum lífsins án þess að þurfa að koma nálægt kirkjum eða kapellum. En við erum líka á móti því að ríkið hampi hjátrú – og hvað þá forréttindum á forsendum hennar. Við styðjum eindregið að Tré lífsins og Bálfarafélag Íslands fái að koma sér upp aðstöðu fyrir bálfarir og aðrar athafnir, þar sem allt fólk stendur jafnt, óháð trúar- eða lífsskoðunum.

Grein birtist á Visir.is 6. september síðastliðin.

Deila:

Facebook
Twitter