Íslenska ríkið borgar trúfélögum og lífsskoðunarfélögum sóknargjöld eftir fjölda fólks sem er skráð í viðkomandi félag fyrsta desember árið á undan. Nú er fyrsti desember á morgun. Vitið þið hvar þið eruð skráð? Eruð þið alveg viss? Ég spyr, því það skiptir máli – ríkið mun úthluta meira en tíuþúsundkalli á mann á næsta ári eftir skráningunni á morgun.
Ég skora á ykkur að fara t.d. inn á heimasíðu Þjóðskrár Íslands, skrá ykkur þar inn með rafrænum skilríkjum og finna trúfélagsskráninguna ykkar. Ef hún er eins og þið viljið hafa hana: fínt. Ef ekki, þá er núna rétti tíminn til að leiðrétta hana. Í gamla daga máttu vinnuhjú skipta um vist á fardögum. Í dag mega sóknarbörn skipta um trúfélag.
Þessi athugun ætti ekki að taka ykkur meira en mínútu, og það þótt möguleg leiðrétting sé talin með.
Ef þið eruð að hugsa um að velja ykkur nýtt trúar- eða lífsskoðunarfélag, þá er óneitanlega úr mörgu að velja: þau eru meira en fimmtíu.
Lífsskoðunarfélög eru tiltöluleg nýlunda hér á landi. Þekktust er Siðmennt, fyrir siðrænan húmanisma og sínar borgaralegu athafnir. Mig langar þó til að vekja athygli á öðru félagi: DíaMat – félagi um díalektíska efnishyggju. Ég er forstöðumaður þess. DíaMat er líka trúlaust lífsskoðunarfélag, en það hefur ekki mikla áherslu á athafnir (þótt það sinni þeim ef þess er óskað) en meiri á að fólk láti verkin tala: Það skiptir miklu meira máli hvaða áhrif þið hafið á veröldina, heldur en hvernig þið útskýrið hana.
DíaMat hefur frá stofnun látið drjúgan hluta sóknargjalda sinna renna til góðs málstaðar. Geðræktar- og uppeldismál hafa notið þess mest, enda teljum við að í gegn um þau valdeflist venjulegt fólk og verði þannig hæfara til að vinna að sinni eigin velferð, hvort heldur er í sameiningu eða eitt og sér. Sjáið nánar á heimasíðu okkar.
Félag okkar er ekki stórt, en það er nóg pláss fyrir nýja meðlimi. Farið á Þjóðskrá í dag ef þið viljið vera með.