loader image

Dags

Sólustöðuhugvekja 2023

Skrifað af:

Stjorn

Í nótt voru vetrarsólstöður. Stysti dagur ársins að baki og bjartari tímar framundan. Jólin eru líka framundan. Þessi eldgamla hundheiðna hátíð sem kristnir menn stálu og gerðu nánast að sinni einkaeign fyrir mörgum öldum síðan.

Í hugum margra eru jólin trúarleg hátíð og það má sannarlega til sanns vegar færa. En Jesús Kr. Jósefsson hefur fyrir löngu misst tökin á meintum afmælisdegi sínum og annar trúarleiðtogi tekið yfir. Trölli var löngum sakaður um að hafa stolið jólunum en hinn eini sanni þjófur er Mammon.

Við tölum oft um að jólin snúist fyrst og fremst um samveru en enginn sleppur undan ægivaldi kapítalismans á þessum árstíma. Af þessum sökum snúast jólin hjá mörgum fyrst og fremst um stress og áhyggjur. Fyrir öreiga allra landa eru jólin einfaldlega mjög erfiður tími. Samfélagið setur á okkur pressu um að kaupa dýrar gjafir, elda veislukrásir og sýna glansmyndir á samfélagsmiðlum.

Framundan eru sannarlega bjartari tímar. Sólin mun hækka á lofti og skammdegið hopa. En fyrir marga verður janúar mögulega erfiðasti mánuður ársins þegar þarf að borga fyrir yfirdrifna neyslu desembermánaðar.

Margir munu líka einfaldlega ekki geta haldið hefðbundin jól þótt þeir vildu. Um 1% íslensku þjóðarinnar varð skyndilega heimilislaus 10. nóvember og nú er eldgos hafið við Grindavík. Við Grindvíkingar höldum jólin í skugga jarðhræringa í ár en leyfum okkur að vona að með hækkandi sól komi bókstaflega bjartari tímar.

Með jólakveðju,
Siggeir F. Ævarsson, gjaldkeri DíaMat og flóttamaður í eigin landi.

Mynd: Viken Kantarci fyrir AFP

Deila:

Facebook
Twitter