rituð á Hvanneyri, febrúar 2025
fyrir starfsárið 11. febrúar 2024 – 15. febrúar 2025
Síðasti aðalfundur var haldinn 11. febrúar 2024. Áður hafði öldungaráð fundað og kosið Véstein Valgarðsson, Þorvald Þorvaldsson og Ingibjörgu Ingvarsdóttur í stjórn. Aðalfundur samþykkti að breyta „athafnarmanni“ í „erindreka“ í lögum félagsins og öðrum samþykktum. Aðalfundur kaus Siggeir Fannar Ævarsson og Karl Héðin Kristjánsson í stjórn. Skúli Jón Kristinsson og Árni Daníel Júlíusson voru kosnir skoðunarmenn reikninga. María Hjálmtýsdóttir var kosin í öldungaráð. Talsvert var rætt um lóðarmálið og hlutverk byggingarsjóðs ef fallið yrði frá frekari málaferlum. Samþykkt var fjárhagsáætlun um að 1.200.000 kr. yrði varið í styrktarsjóð, 1.200.000 kr. í byggingarsjóð (20% hækkun frá fyrra ári). Félagssjóður fengi þá afganginn af sóknargjöldunum, um 600.000 kr., auk annarra tekna.
Stjórnarfundir
Á fyrsta stjórnarfundi skipti stjórn með sér verkum: Vésteinn formaður, Ingibjörg varaformaður, Þorvaldur ritari, Siggeir gjaldkeri og Karl meðstjórnandi. Stjórnarfundir í eigin persónu voru sex talsins: 24. febrúar, 18. maí, 31. júlí, 18. september, 3. nóvember og 4. janúar. Þess á milli hélt stjórn opinni stjórnar-umræðu í gegnum Facebook Messenger og tók margar ákvarðanir í henni.
Díalektískar stundir
Félagið hélt 10 díalektískar stundir á árinu, auk eins félagsfundar.
Félagsfundurinn var á hlaupársdag og snerist um lokaafgreiðslu lóðamálsins.
Þann 18. mars ætluðum við að sýna kvikmynd, en þurftum að fresta henni til 8. apríl. Það var kvikmyndin Orrustan um Algeirsborg.
Þann 24. apríl kom Sema Erla Serdar, formaður Solaris, á okkar fund og talaði um stöðu flóttamannamála.
Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, buðum við í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn eins og hefð er orðin hjá okkur, en í þetta sinn létum við boð út ganga til flóttamanna að börn á flótta og foreldrar þeirra væru boðin sérstaklega velkomin. Félagið bauð aðgangseyri og veitingar og komu 40 manns. Var þetta einn best sótti viðburður sem félagið hefur haldið.
Í maí þurftum við að fella niður fund (vegna þess að forstöðumaður eignaðist barn aðeins fyrr en ætlað var).
Þann 30. júní hélt Þorvaldur Þorvaldsson framsögu um Folkestrejken í Danmörku, allsherjarverkfall gegn nasisma og hernámi, en þá voru 80 ár liðin frá því.
Þann 18. ágúst leigðum við rútu og fórum í sumarferð á Hvanneyri í Borgarfirði og Hlaðir í Hvalfirði. Mættu 14 fullorðnir og 6 eða 7 börn.
Þann 1. október héldum við fund um 75 ára afmæli kínversku byltingarinnar, þar sem Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur hafði framsögu.
Þann 19. nóvember kom Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, og sagði okkur frá starfsemi Ljóssins.
Þann 14. desember héldum við díalektíska jólastund, með samlestri úr Athugasemdum Karls Marx við Gotha-stefnuskrána, sem Ingibjörg Ingvarsdóttir leiddi.
Þann 26. janúar kom Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á okkar fund og sagði frá sinni sýn og reynslu í stéttabaráttunni.
Þann 15. febrúar hélt Þorvaldur Þorvaldsson framsögu um þátttöku sína í árlegri ráðstefnu og göngu í Berlín, til minningar um Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht.
Fjölgun félaga
Þann 1. desember 2023 voru 218 félagar í DíaMat og fjölgaði þeim upp í 234 þann 1. desember 2024. Það er fjölgun upp á 16 manns, eða rúm 7%. Þar með erum við orðin 22. stærsta trúar- eða lífsskoðunarfélag landsins, en vorum í 24. sæti fyrir ári.
Erindrekar og athafnir
Fyrstu vinnusmiðju erindreka lauk með útskrift í maí 2024, þegar 7 félagar fengu formlegt umboð forstöðumanns til þess að gefa saman hjón í nafni félagsins og kallast erindrekar DíaMats.
DíaMat gaf saman tvenn hjón á árinu, ein í febrúar og ein í október. Erindreki DíaMats gaf nafn í einni nafngjafarathöfn.
Styrkir
Aðalfundur 2024 ákvað að eyrnamerkja 1.200.000 kr. í styrki á árinu. Mjög stuttu eftir hann voru hjálparsamtökin Solaris styrkt um 150.000 kr. Í nóvember var úthlutað öðrum styrkjum: Solaris 100.000 kr. til viðbótar. Réttur barna á flótta 250.000 kr. Ljósið 250.000 kr. Pieta 250.000 kr. Loks var samþykkt að veita 200.000 kr. styrk til rannsóknar á upplifun innflytjenda og hælisleitenda á íslensku lögreglunni.
Þá var ákveðið í ársbyrjun 2025 að veita 200.000 kr. styrk til rannsóknar á því hvernig stjórnunarhættir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og geðsviði Landspítalans hafa áhrif á þjónustuna.
Önnur mál
Með bréfi dags. 19. febrúar 2024, var okkur tilkynnt að Hæstiréttur hefði hafnað áfrýjunarbeiðni okkar vegna lóðamálsins. Í samræmi við fyrri umræður héldum við því félagsfund 29. febrúar, þar sem lokaumræða fór fram um málið og var einróma niðurstaða að láta gott heita, það borgaði sig ekki að sækja málið til Mannréttindadómstóls Evrópu, vegna þess að það kostaði mjög mikið og alls óvíst væri að það skilaði neinum árangri, ekki einu sinni lóð. Þar með var lóðamálinu lokið af okkar hálfu.
Við ræddum þann möguleika að kaupa gamla bókabílinn Höfðingja af Reykjavíkurborg og breyta honum í díalektískan skála á hjólum! Úr því varð þó ekki.
Við sendum frá okkur kveðjur 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti, og á fyrsta maí.
Þorvaldur og Karl Héðinn voru fulltrúar okkar í Samráðsvettvangi trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Samráðsvettvangurinn hefur verið að undirbúa drög að lögum til þess að stofna formleg samtök og verður það gert nú síðar í febrúar.
Fyrsta september fór forstöðumaður f.h. félagsins og var við biskupsvígslu við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju.
Við styrktum félaga okkar til þátttöku í málþingi um dánaraðstoð. Við styrktum líka félaga okkar til þátttöku í árlegri ráðstefnu og göngu til minningar um Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht, í Berlín í janúar.
Við gáfum út Byltingardagatalið nú fyrr í vetur, en að þessu sinni er það DíaMat eitt sem stendur að því.
Við ákváðum nú í vetur að stofna krísusjóð, til þess að geta átt í handraða einhverja peninga til þess að geta hjálpað félögum sem lenda í persónulegri krísu. Karl Héðinn Kristjánsson er trúnaðarmaður sjóðsins og hann og Siggeir F. Ævarsson sjá saman um hann.
Framundan
Það er nýrrar stjórnar að leiða starf næsta starfsárs. En meðal þess sem liggur fyrir, að mínu mati, er að vinna áfram í því að gera heimasíðuna aðgengilega og efnisgóða. Þar vantar t.d. betri kynningu á athafnaþjónustu og kynningu á erindrekum félagsins. Þá vantar sölubás á heimasíðuna, þar sem hægt væri að nálgast kynningarefni frá félaginu á prenti eða öðru formi. Okkur hefur lengi vantað að semja og prenta nýjan bækling um félagið.