Stjórn DíaMats:
Forstöðumaður: Vésteinn Valgarðsson
Varaformaður: Ingibjörg Ingvarsdóttir
Ritari: Þorvaldur Þorvaldsson
Gjaldkeri: Siggeir F. Ævarsson
Meðstjórnandi: Karl Héðinn Kristjánsson
Lögheimili DíaMats: Hólatorg 4, 101 Reykjavík
Kennitala: 631115-1790
Bankareikningur: 1110-26-001917

DíaMat – félag um díalektíska efnishyggju er skráð lífsskoðunarfélag. Það þýðir að félagið hefur sambærilega stöðu og trúfélag, þannig að það fær m.a. greidd sóknargjöld frá íslenska ríkinu fyrir skráða meðlimi, og það getur gefið saman hjón. DíaMat var stofnað 2015 og fékk viðurkenningu 2016.
Díalektísk efnishyggja er heimspekilegur grundvöllur marxismans og á sér m.a. hefð sem opinber lífsskoðun Sovétríkjanna. Styttingin „DíaMat“ kemur raunar úr smiðju Sovétmanna. Sambærileg félög eru þó ekki til erlendis, því sambærileg lagaumgjörð fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög er naumast til annars staðar en á Íslandi. Starfsemi DíaMats er því lifandi blanda af grónum marxískum hefðum, og túlkun þeirra í nútímanum og í óhefðbundnu samhengi.
Nú gæti einhver spurt: Af hverju eruð þið ekki stjórnmálaflokkur? Svar: Vegna þess að við erum félag sem byggist á heimspekistefnu. Heimspekistefnan er að vísu náskyld stjórnmálaheimspeki og pólitískri hagfræði Marx en félag okkar er hvorki með neina pólitíska stefnuskrá né hugmyndir um að öðlast pólitísk áhrif í þjóðfélaginu. Ekki þá nema á þann óbeina hátt að við hvetjum alþýðufólk til þess að gera sig gildandi í hagsmunabaráttu sinni, og við styðjum við þjóðþrifastarf sem stuðlar að valdeflingu alþýðufólks, með áherslu á annars vegar uppeldis- og geðheilbrigðismál, en hins vegar á mannréttindabaráttu.
Nú gæti einhver spurt: Er DíaMat að misnota kerfið? Svar: Alls ekki. En við erum vissulega að nota kerfið, eins og öll hin trúar- og lífsskoðunarfélögin. Nota kerfið eins og til er ætlast að það sé notað: Að fólk sem aðhyllist sömu lífsskoðunina geti stofnað og rekið félagsskap um þessa lífsskoðun á jafnréttisgrundvelli við aðrar lífsskoðanir.
Vésteinn Valgarðsson, forstöðumaður DíaMats