Dags

DíaMat 10 ára – hvað er nú það?

Skrifað af:

Vésteinn Valgarðsson

DíaMat var stofnað 2015, stofnfundur var um vorið en framhaldsstofnfundur 16. október sama haust og er því tíu ára í dag. Það fékk skráningu hjá sýslumanni árið eftir.

DíaMat er veraldlegt lífsskoðunarfélag sem byggist á heimspeki og heimsskoðun marxismans. Innan marxismans eru, sem kunnugt er, ýmsir straumar, og við ákváðum þegar við stofnuðum félagið, að við mundum ekki taka beina afstöðu til þeirra heldur leyfa hundrað blómum að blómstra og frekar efna til umræðu um ágreining heldur en að kveða upp dóma. Hins vegar ákváðum við að halda fókus á kjarnann í marxískri heimspeki, sem kemur m.a. fram í Tesum um Feuerbach: „Heimspekingarnir hafa fram til þessa einkum fengist við að útskýra heiminn. Málið er hins vegar að breyta honum.“ Þessi setning er svo veigamikið að hún er höggvin í legstein Karls Marx.

Lífsskoðun félagsins, díalektísk og söguleg efnishyggja, var opinber lífsskoðun Sovétríkjanna og er eða hefur verið það í fleiri sósíalískum ríkjum.

DíaMat er ekki aktífistafélag. En það er félag um umræðu og greiningu, um fræðslu og hvatningu. Félagið sem slíkt stundar þannig ekki mikla framkvæmd, þótt það boði þann boðskap að fólk eigi að gera sig gildandi í baráttunni fyrir betri og réttlátari heimi. Það sem félagið leggur sjálft af mörkum til þess, er að veita styrki í ýmis þjóðþrifamál. Við getum það vegna þess að skv. íslenskum lögum fáum við sóknargjöld frá íslenska ríkinu, vissa upphæð fyrir hvern þann einstakling sem er skráður í félagið. (Ef þú átt eftir að skrá þig, er það mjög einfalt og fljótlegt í gegn um skra.is – og það tekur því! Það munar verulega verulega um hvern nýskráðan félaga!)

Þessir styrkir hafa jafnan verið nálægt helmingnum að veltu okkar og þeir eru t.d. tæplega ein og hálf milljón á þessu ári (2025). Við reynum að velja starfsemi sem er valdeflandi fyrir alþýðufólk, með það í huga að sama alþýðufólk verði fyrir vikið færara eða hæfara til að taka þátt í lífsbaráttunni. Þannig hafa t.d. Pieta, Ljósið og Hugarafl fengið nokkra styrki. Við höfum líka styrkt flóttamannaaðstoð, m.a. Solaris, og við höfum styrkt neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína. Loks höfum við styrkt rannsóknir og útgáfu efnis sem okkur hefur þótt samræmast markmiðum félagsins.

Við höfum haft díalektískar stundir um það bil mánaðarlega mestallan þann tíma sem við höfum starfað, þar sem venjulega er framsögumaður og svo eru umræður. Framsögumenn segja oft frá samtökum eða starfi sem við höfum styrkt. Þá höfum við farið í sumarferðir flest árin og gert sitthvað fleira.

Við höfum líka sett peninga til hliðar í byggingarsjóð, í því skyni að koma okkur upp félagsheimili í framtíðinni, sem að breyttu breytanda væri ígildi kirkju og safnarðarheimilis. Við höfum átt í málaferlum við Reykjavíkurborg, því við töldum okkur eiga rétt á ókeypis lóð frá borginni undir þessa byggingu, en töpuðum málinu og erum því að huga að því að kaupa bara frekar húsnæði.

Ekki má gleyma því að sem skráð lífsskoðunarfélag getum við séð um athafnir, og höfum þannig leyfi yfirvalda til að gefa saman hjón. Við höfum þjálfað hóp erindreka sem hefur réttindi til hjónavígsluathafna, og þjónusta okkar er án endurgjalds þegar hjónaefnin eru skráð í félagið. Nokkuð er um það að fólk leiti til okkar, og það er mjög ánægjulegt, þótt slík verk séu kannski til hliðar við hefðbundin verkefni marxista.

Byltingardagatalið hefur komið út síðan 2017, þegar þess var minnst að 100 ár voru liðin frá rússnesku byltingunni. Í fyrstu tók DíaMat þátt í útgáfunni, ásamt fleiri vinveittum félögum, en hefur nú tekið við henni og gefur dagatalið út á eigin spýtur.

Framundan hjá okkur er að halda áfram að byggja upp félagið, safna félögum, bæta heimasíðuna okkar, gefa út meira efni á eigin vegum, halda fleiri viðburði og athafnir og þegar okkur vex nægilega fiskur um hrygg að opna félagsheimili þar sem verður funda- og athafnarými auk skrifstofu og bókasafns. Viltu vera með? Það er nóg pláss, bæði fyrir virka félaga og þá sem vilja bara styðja starfs félagsins. Þið farið einfaldlega á www.skra.is og skráið ykkur inn, finnið „Trú og lífsskoðun“, „Breyta“ og þá veljið þið „DíaMat“ af lista og þá eruð þið komin inn.

Heimasíðan okkar er diamat.is og þar er hægt að fylgjast með fréttum af félaginu, en auk þess erum við á Facebook , bæði með síðu og hóp, þar sem hægt er að fylgjast með viðburðum á vegum okkar, sem kostar ekkert!

Sóknargjöld næsta árs eru greidd skv. skráningu fólks eins og hún er 1. desember árið á undan. Þannig að ef þið viljið skrá ykkur, er betra að gera það fyrir 1. desember – já, best er að gera það bara strax! Verið velkomin!

– Vésteinn Valgarðsson, forstöðumaður DíaMats

Deila:

Facebook
Twitter